Bláa Lónið
Heimsóknir hafa aldrei verið fleiri en á árinu 2015 eða tæplega 919 þúsund talsins
Hjarta fyrirtækisins slær í Bláa Lóninu. Mikil áhersla er lögð á að vernda upplifun gesta, enda er upplifun ekki óþrjótandi auðlind. Strax í upphafi árs 2015 lá ljóst fyrir að leggja þyrfti meiri áherslu á að gestir fyrirframbókuðu heimsóknir sínar í gegnum vefbókunarkerfi Bláa Lónsins, sem tekið var í gagnið árið áður.
Markaðsstarfið miðaði að því að koma skilaboðunum til sem flestra áður en þeir legðu leið sína í Bláa Lónið. Einnig var tekið í gagnið bókunarkerfi fyrir endursöluaðila, þar sem ekki er síður mikilvægt að þeir bóki sína gesti fyrirfram. Þessi vinna hefur skilað góðum árangri þar sem hátt í 90 prósent gesta eru nú bókaðir fyrirfram og auðveldar það alla stýringu hvers dags.
Endurhönnun og stækkun Bláa Lónsins
Í upphafi árs 2016 var ráðist í stækkun og endurhönnun á upplifunarsvæði Bláa Lónsins. Óhætt er að segja að verkið hafi tekist vel. Bláa Lónið var opnað á ný þann 22. janúar 2016, eftir að framkvæmdir höfðu staðið yfir frá 5. – 21. janúar. Undirbúningur hafði þó staðið yfir allt árið 2015.
Breytingarnar hafa mælst vel fyrir meðal gesta. Bláa Lónið var endurhannað og stækkað um ríflega helming, eða úr 5500 fermetrum í 8700 fermetra. Nýr Skin Care bar, sem veitir aukið aðgengi að kísil- og þörungamöskum, var tekinn í notkun ásamt nýju svæði fyrir spa meðferðir og nudd. Þá var nýr veitingabar tekinn í notkun í lóninu sjálfu.
Eftir að framkvæmdum lauk í janúar var birt opnuauglýsing í dagblöðum þar sem samstarfsaðilum var þakkað fyrir. Hægt er að smella á myndina til að sjá hana í stærri upplausn.
Verkefnið, sem var bæði flókið og krefjandi, gekk vonum framar. Samstilltur og góður hópur fólks sem að þessu kom á þar mestan heiðurinn. Alls komu um 100 starfsmenn og verktakar að framkvæmdunum.
Þessi áfangi endurhönnunarinnar tengir núverandi lón við nýtt upplifunarsvæði sem byggt er inn í hraunið. Áformað er að svæðið verði opnað 2017 ásamt 60 herbergja lúxushóteli. Framkvæmdir við verkið ganga vel og að öllu jöfnu starfa um 100 starfsmenn að verkefninu.