Öflugur hópur starfsfólks

Fólkið sem starfar hjá Bláa Lóninu er ein verðmætasta auðlind fyrirtækisins

Óhætt er að segja að starfsfólk Bláa Lónsins sé samstilltur og metnaðarfullur hópur. Þetta á bæði við um verkefni dagsins og þátttöku í viðburðum utan vinnutíma. Heil stöðugildi árið 2015 voru að meðaltali 302 samanborið við 256 árið á undan. Starfsfólki hefur með öðrum orðum fjölgað um tæplega 18% milli ára.

Starfsmenn og stöðugildi

Fræðsla

Umfangsmikil og fjölbreytt fræðsla fer fram í Bláa Lóninu sem miðar að því að efla hæfni starfsmanna og hámarka upplifun gesta. Starfsmenn hljóta markvissa þjálfun í þáttum sem lúta að þjónustugæðum, framkomu, öryggismálum og fleiru. Auk þess fá allir nýir starfsmenn umfangsmikla og persónulega handleiðslu frá stjórnanda og reyndari starfsmönnum.

Öryggismál

Öryggi og heilsa starfsfólks og gesta eru í öndvegi hjá Bláa Lóninu. Áhersla er lögð á forvarnir og að efla öryggisvitund starfsfólks. Bláa Lónið hvetur jafnframt starfsfólk til heilbrigðra lífshátta. Starfsmenn sækja skyndihjálparnámskeið sem og verklegar öryggisæfingar.

Bláa Lónið á einnig í góðu samstarfi við björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík og aðra viðbragðsaðila á Reykjanesi. Á árinu 2015 voru haldin 11 heilsdags skyndihjálparnámskeið og tóku 156 starfsmenn þátt í þeim.

Félagslíf starfsmanna

Hópur starfsfólks gengur vikulega á fjöll og er það liður í undirbúningi fyrir krefjandi göngu sem farin er að sumri. Sumarið 2015 gengu 58 starfsmenn á Fimmvörðuháls. Þá tóku 60 starfsmenn þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Þátttakendur hétu á gott málefni og lagði fyrirtækið til framlag á móti því sem starfsmenn söfnuðu.

Góð þátttaka var í árlegri starfsmannaferð þar sem áhersla er á að starfsmenn upplifi fjölbreytta möguleika í ferðaþjónustu á Íslandi. Í ferðinni fór hluti starfsfólks í Ísgöngin á Langjökli á meðan aðrir fóru í snjósleðaferð á Langjökli. Starfsmenn hafa einnig aðgang að orlofshúsum víðsvegar um landið og hefur sá möguleiki verið vel nýttur.

Start typing and press Enter to search