Markaðsmál og almannatengsl
Bláa Lónið hefur í auknum mæli nýtt sér stafræna miðla í markaðssetningu
Áhersla Bláa Lónsins í markaðsskilaboðum á árinu 2015 var að gestir bóki heimsókn sína með fyrirvara. Í þeim tilgangi að efla upplifun gestanna og hafa jafna dreifingu yfir daginn á heimsóknum þeirra í lónið var mikilvægt að koma þessum skilaboðum skýrt til skila.
Þessum skilaboðum var komið á framfæri í gegnum netmiðla, með auglýsingaleiðum Google, í hefðbundnum auglýsingum í tímaritum og dagblöðum og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá fjölluðu fjölmiðlar einnig um mikilvægi þess að gestir bókuðu heimsókn sína fyrirfram, innlendir sem erlendir, með góðum árangri.
Í upphafi árs bókuðu 20 prósent gesta heimsóknina sjálfir í gegnum vefinn en í lok árs var hlutfallið komið í um 50 prósent. Þegar við bætast þær fyrirfram bókanir sem gerðar eru af endursöluaðilum fer heildarhlutfall fyrirfram bókaðra gesta í yfir 90 prósent.
Mikilvægi vefsvæðis Bláa Lónsins jókst jafnt og þétt. Fjöldi einstakra notenda á vefnum jókst um 50 prósent á milli ára og var fjöldi einstakra notenda á árinu 2015 alls 1,7 milljón talsins. Notkun á bókunarkerfi vefsins jókst mikið og er mikilvægur hluti vefsvæðisins.
Sala Blue Lagoon húðvara jókst einnig jafnt og þétt, ekki síst í gegnum vefverslun. Þær hafa á árinu 2015 birst jöfnum höndum í nýjum umbúðum og með nýju myndmerki Bláa Lónsins. Litir á umbúðum eru vísun í náttúrulega liti umhverfis Bláa Lónið. Myndmerkið sem Design Group Italia, samstarfsaðili Bláa Lónsins, hannaði var formlega kynnt síðla árs 2015.
Þróun myndmerkis
Innleiðing á nýju myndmerki Bláa Lónsins hófst á árinu 2015. Ákvörðun var tekin um að innleiða merkið skref fyrir skref í stað þess að skipta því út samtímis á öllum stöðum. Slíkt hefði verið mun kostnaðarsamara heldur en sú leið sem valin var.






Viðurkenningar
Vefsvæði herferðar Bláa Lónsins „Fegurðin kemur að innan“ hlaut verðlaun Félags íslenskra teiknara (FÍT). Í umsögn dómnefndar um vefinn segir: „Einstaklega fallegur vefur sem dýpkar skilning notandans á vörum Bláa Lónsins. Styður fullkomlega við ímynd fyrirtækisins“. Samtök vefiðnaðarins (SVEF) veittu einnig herferðinni viðurkenningu fyrir bestu markaðsherferðina á netinu.
Almannatengsl og samfélagsmiðlar
Mikill fjöldi blaðamanna heimsótti Bláa Lónið líkt og undanfarin ár. Auk hefðbundinna miðla má merkja mikla aukningu á áhuga bloggara á Bláa Lóninu og Íslandi. Mörg slík blogg hafa marga fylgjendur sem hafa sérstakan áhuga á ritstjórnaráherslum þeirra sem gjarnan lúta að ferðalögum.
Blaðamennirnir koma ýmist á eigin vegum eða eru á vegum samstarfsaðila Bláa Lónsins, til dæmis Íslandsstofu, Iceland Naturally, Icelandair og WOW Air auk þeirra erlendu flugfélaga sem fljúga hingað til lands.
blue lagoon! pic.twitter.com/Hji4WkjLiv
— Kim Kardashian West (@KimKardashian) April 20, 2016