Rannsóknir og þróun

Í rannsókna- og þróunarsetri Bláa Lónsins í Svartsengi fer fram einstakt vísindastarf

Markmið rannsókna- og þróunarsviðs er að stunda hagnýtar rannsóknir á náttúruauðlindinni og þróa nýjar vörur og þjónustu er byggja á henni. Sviðið annast einnig framleiðslu Blue Lagoon hráefna og húðvara.

Bláa Lónið hefur nú fengið útgefið einkaleyfi í Evrópu á snyrtivörum og lyfjum með sérstökum blágrænþörungum og gildir það í helstu löndum álfunnar. Áður hafði fyrirtækið fengið útgefið samsvarandi einkaleyfi í Bandaríkjunum.

Tveir doktorsnemar vinna að rannsóknaverkefnum sínum í samvinnu við Bláa Lónið. Jenna Huld Eysteinsdóttir læknir hefur undanfarin átta ár unnið að rannsóknum á virkni Bláa Lóns psoriasis meðferðarinnar og eru þær rannsóknir hluti af doktorsverkefni hennar við læknadeild Háskóla Íslands. Hún stefnir að því að verja verkefni sitt í október 2016.

Ása Bryndís Guðmundsdóttir lyfjafræðingur vinnur að rannsóknum á lífvirkum efnum úr blágrænþörungum Bláa Lónsins sem lið í doktorsverkefni hennar við lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þá hafa tveir meistaranemar við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík rannsakað lípíð sem unnið er úr þörungum í samvinnu við Bláa Lónið undanfarið ár.

Margvísleg rannsókna- og þróunarstörf

Bláa Lónið vinnur að rannsókna- og þróunarverkefnum með sérfræðingum hér heima og erlendis. Til dæmis starfar prófessor Jean Krutmann, húðlæknir og sérfræðingur í áhrifum umhverfis á öldrun húðarinnar, sem rannsóknaráðgjafi hjá Bláa Lóninu. Hann er rannsóknastjóri hjá Leibniz Research Institute for Environmental Medicine Environ. Einnig má nefna Fabienne Bresdin, „cosmetic scientist“, eiganda franska fyrirtækisins Beauty Tags. Hún vinnur sem ráðgjafi fyrir Bláa Lónið í vöruþróun og framleiðslu húðvara.

Sérstök vísindanefnd er starfandi hjá Bláa Lóninu og er hún ráðgefandi varðandi rannsókna- og þróunarverkefni. Í vísindanefndinni eru húðlæknarnir Bárður Sigurgeirsson, Jón Hjaltalín Ólafsson og Steingrímur Davíðsson, Ingileif Jónsdóttir doktor í ónæmisfræði og Ása Brynjólfsdóttir lyfjafræðingur og rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins. Þá er Bláa Lónið í rannsóknasamstarfi við sérfræðinga á rannsóknastofu ónæmisfræðideildar Landspítalans, við lyfjafræðideild Háskóla Íslands og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Blue Lagoon Skin Care products benefits

Framleiðsla

Í hráefnavinnslu Bláa Lónsins fer fram vinnsla á jarðsjónum og virkum innihaldsefnum hans: kísil, söltum og þörungum, til nota í húð- og heilsuvörur fyrirtækisins. Vinnsluferlar eru sjálfbærir og umhverfisvænir. Hráefnavinnslan er gott dæmi um hvernig nýta má auðlindastrauma frá jarðvarmavirkjuninni í Svartsengi.

Kísilframleiðsla

Hvítur kísillinn er eitt helsta einkenni Bláa Lónsins. Árleg kísilframleiðsla til nota í Bláa Lóninu, í Lækningalind og í húðvörur Bláa Lónsins nemur um 80 tonnum.

Saltframleiðsla

Bláa Lóns saltið er eitt af lykilefnum Blue Lagoon húðvörulínunnar. Megnið af saltinu sem framleitt er fer í framleiðslu á baðsöltum og saltskrúbbi fyrir spa meðferðir í lóninu.

Þörungaframleiðsla

Útblástursgas (CO2) frá jarðvarmaveri HS Orku í Svartsengi er nýtt sem fóður í þörungaræktun Bláa Lónsins. Það að umbreyta útblástursgasi með þessum hætti á iðnaðarskala er einstakt á heimsvísu.

Auðlindagarður

Á vordögum 2015 var skýrsla Gamma um efnahagsleg áhrif Auðlindagarðsins á Reykjanesi kynnt á fjölmennri ráðstefnu sem haldin var í Hörpu. Skýrslan var unnin fyrir Bláa Lónið og HS Orku hf. Niðurstöður skýrslunnar voru einnig kynntar á ráðstefnu sem haldin var í Eldborg í Svartsengi á haustdögum. Við það tilefni voru niðurstöður skýrslunnar kynntar sérstaklega fyrir sveitastjórnarmönnum og öðrum hagsmunaaðilum á Reykjanesi. Albert Albertsson er hugmyndafræðingur Auðlindagarðsins, sem byggir á hugmyndafræði samfélags án sóunar.

Fyrirtæki Auðlindagarðsins nýta óhefðbundna strauma frá jarðvarmaveri HS Orku í Svartsengi. Bláa Lónið er eina fyrirtækið sem nýtir alla straumana. Heit gufa er nýtt við framleiðslu á salti, CO2 við að fæða þörunga og gestir Bláa Lónsins njóta jarðsjávarins til vellíðunar og lækninga.

0
Fjöldi starfsmanna í Auðlindagarðinum í Svartsengi
0
Fjöldi afleiddra starfa frá Auðlindagarðinum

Start typing and press Enter to search