Helgi Magnússon

„Liðsheildin er góð. Með öðrum hætti næðist ekki sá mikli árangur sem raun ber vitni.“

Ágætu hluthafar.

Bláa Lónið hf. fagnar áframhaldandi vexti og velgengni. Síðustu 5 ár hafa verið félaginu ákaflega hagstæð í öllu tilliti. Umsvifin hafa aukist jafnt og þétt, afkoma hefur verið mjög góð og fjárhagslegur styrkur félagsins hefur vaxið að sama skapi. Þennan meðbyr hefur fyrirtækið notað til eflingar starfseminnar, fjárfestinga og uppbyggingar sem við vonum að nýtist því í framtíðinni.

Bláa Lónið hf. er 24 ára. Fyrirtækið byrjaði sem lítið sprotafyrirtæki og hefur verið byggt upp og þróað úr engu yfir í það að vera öflugt, og stórt fyrirtæki sem gegnir lykilhlutverki á sviði íslenskrar ferðaþjónustu sem er nú orðin stærsta gjaldeyrisskapandi grein þjóðarinnar. Bláa Lónið er nú sem fyrr frumkvöðlafyrirtæki sem byggir á nýsköpun á sviði heilsuferðaþjónustu, lækningameðferða og framleiðslu húðvara sem þróaðar eru með rannsóknum innan fyrirtækisins. Margvísleg tengd starfsemi fylgir, t.d. á sviði veitingarekstrar sem fer mjög vaxandi.

Frumkvöðlarnir sem hafa leitt starf Bláa Lónsins frá upphafi höfðu sýn sem fáir trúðu á en djarfar hugmyndir þeirra hafa á seinni árum orðið að áþreifanlegum veruleika sem birtist í því að stöðugildi hjá Bláa Lóninu voru yfir 300 á síðasta ári, rekstrartekjur námu tæpum 8 milljörðum króna og hagnaður eftir skatta var 2,2 milljarðar króna. Þá er eiginfjárstaða félagsins sterk og fjárhagur traustur þó svo ráðist hafi verið í margháttaðar fjárfestingar í ýmsum deildum fyrirtækisins. Vegur þar þyngst bygging nýs hraunupplifunarsvæðis og lúxushótels sem verður opnað fyrir gestum á næsta ári.

Bláa Lónið er nú stærsti vinnuveitandinn í Grindarvík og einn stærsti vinnuveitandinn á Suðurnesjum. Metnaður stjórnar og stjórnenda félagsins stendur til þess að fyrirtækið sé góður og eftirsóttur vinnustaður og hefur verið mörkuð skýr stefna varðandi það. Við finnum fyrir því að fólk sækist eftir því að starfa með okkur enda er starfsfólkið öflugt og áhugasamt. Liðsheildin er góð. Með öðrum hætti næðist ekki sá mikli árangur sem raun ber vitni.

Bláa Lónið hf. er 24 ára. Fyrirtækið byrjaði sem lítið sprotafyrirtæki og hefur verið byggt upp og þróað úr engu yfir í það að vera öflugt, og stórt fyrirtæki sem gegnir lykilhlutverki á sviði íslenskrar ferðaþjónustu sem er nú orðin stærsta gjaldeyrisskapandi grein þjóðarinnar.

Árið 2010 voru gestir Bláa Lónsins 413 þúsund talsins. Í fyrra voru þeir  tæplega 919 þúsund. Á þessum 5 árum hefur gestafjöldinn því meira en tvöfaldast. Á árinu 2016 er gert ráð fyrir að rúmlega milljón gestir heimsæki Bláa Lónið.

Alla sem eru í rekstri dreymir um að njóta velgengni og vaxtar. En vandi fylgir vegsemd hverri. Það er vandasamt að stjórna fyrirtæki sem vex eins mikið og Bláa Lónið hefur gert. Því hefur stöðugt þurft að hafa vakandi auga með endurbótum og eflingu einstakra rekstrarþátta. Það hefur sem betur fer tekist vel undir forystu Gríms Sæmundsen forstjóra og öflugra samstarfsmanna hans.

Stjórn félagsins hefur stutt alla uppbyggingu félagsins heils hugar. Samstarf hluthafa, stjórnar, stjórnenda og starfsfólksins alls hefur skapað þann mikla árangur sem blasir við okkur.

Fyrir þetta góða samstarf þakka ég fyrir hönd stjórnar félagsins.

Framtíð Bláa Lónsins er björt. Sóknarhugur einkennir fyrirtækið. Okkur er samt öllum ljóst að víða leynast hættur sem þarf að varast og ógnir sem erfitt er að ráða við. Unnið er skipulega að því að takast á við allt sem starfsmenn og stjórnendur fyrirtækisins geta ráðið við.

Samgöngukerfið er því miður ekki nógu öflugt og þau verkefni sem opinberir aðilar hafa átt að sinna eru því miður ekki í því horfi sem ætlast verður til. Á þessu verður að ráða bót hið fyrsta.

Meiri ástæða er til að hafa áhyggjur af ytri þáttum, bæði í náttúru landsins og á öðrum sviðum. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur skapað allan þann hagvöxt sem mælist nú á Íslandi. Greinin hefur gegnt lykilhlutverki í því að draga úr atvinnuleysi, koma fjárfestingum af stað eftir mikla niðursveiflu og bæta gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins. Það hefur valdið styrkingu íslensku krónunnar sem gerir það að verkum að útflutningsgreinar fá minna í sinn hlut á sama tíma og innflutningsverðlag verður hagstæðara.

Hljómar öfugsnúið en er engu að síður þannig.

Mikil umræða hefur verið um að innviðir samfélagsins ráði illa við þann mikla fjölda ferðamanna sem sækja landið heim á ári hverju. Samgöngukerfið er því miður ekki nógu öflugt og þau verkefni sem opinberir aðilar hafa átt að sinna eru því miður ekki í því horfi sem ætlast verður til.

Á þessu verður að ráða bót hið fyrsta. Um forgangsverkefni er að ræða. Forystan verður að koma frá atvinnugreininni sjálfri frekar en frá stjórnvöldum sem jafnan eru svifaseinni en fyrirtækin í landinu.

Engu að síður er full ástæða til bjartsýni.

Start typing and press Enter to search