Grímur Sæmundsen

„Framtíð Bláa Lónsins er björt. Það eru spennandi tímar framundan.“

Ágætu hluthafar.

Vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu hefur ekki farið framhjá neinum. Greinin hefur haldið áfram að vaxa í forystuhlutverki sínu sem stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Með því að halda rétt á þessu stórkostlega tækifæri, sem vöxtur ferðaþjónustunnar er, og skýrri stefnu má efla greinina enn frekar. Þar mun sameiginleg stefnumótun og aðgerðaáætlun Samtaka ferðaþjónustunnar og ráðuneytis ferðamála, sem birtist í Vegvísi í ferðaþjónustu, og Stjórnstöð ferðamála, samráðsvettvangur ríkisstjórnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar, leika lykilhlutverk.

Árangur íslenskrar ferðaþjónustu er lykill þess að nú er atvinnuleysi á Íslandi í lágmarki og geysilegt gjaldeyrisinnflæði vegna greinarinnar er að gera stjórnvöldum kleift að aflétta fjármagnshöftum án þeirrar áhættu að íslenska krónan veikist gagnvart erlendum gjaldmiðlum við þær aðgerðir.

Þó má segja, að í þessum efnum sé ferðaþjónustan fórnarlamb eigin velgengni, þar sem helstu ógnanir, sem greinin stendur nú frammi fyrir, eru einmitt þensla á innlendum vinnumarkaði og hugsanleg styrking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum eftir afnám gjaldeyrishafta, sem gæti komið niður á alþjóðlegri samkeppnishæfni greinarinnar.

Starfsemi Bláa Lónsins hélt áfram að vaxa og dafna á árinu 2015. Vöxtur hefur haldið áfram á öllum sviðum fyrirtækisins og markvisst hefur verið unnið að því að styrkja rekstrarlega innviði, m.a. mannauð, en yfir 500 manns munu starfa hjá félaginu nú í sumar.

Í umræðum um atvinnutækifæri innan ferðaþjónustunnar er því ranglega haldið fram að í greininni séu eingöngu láglaunastörf. Rétt er að hafa í huga að mikill fjöldi þeirra starfa sem skapast hafa innan ferðaþjónustunnar á undanförnum misserum eru sérfræðistörf. Starfsemi Bláa Lónsins er þar gott dæmi, en starfsfólki með sérmenntun hefur fjölgað á öllum sviðum fyrirtækisins, ekki hvað síst á sviði mannauðs, tækni og sölumála.

Vöxtur hefur haldið áfram  á öllum sviðum fyrirtækisins og markvisst hefur verið unnið að því að styrkja rekstrarlega innviði, m.a. mannauð, en yfir 500 manns munu starfa hjá félaginu nú í sumar.

Mikið uppbyggingarskeið stendur yfir hjá Bláa Lóninu. Upplifunarsvæði Bláa Lónsins  hefur verið  stækkað um helming. Nýtt spa upplifunarsvæði, sem tengir núverandi lón og nýtt 60 herbergja lúxus hótel eru í byggingu og lýkur þeim framkvæmdum um mitt næsta ár. Með uppbyggingunni tekur Bláa Lónið mikilvæg skref í að þjónusta ferðamenn sem leita eftir miklum gæðum.

Framkvæmdum við stækkun Lækningalindar, sem nú ber nafnið Silica Hotel, er lokið og hefur 20 nýjum herbergjum verið bætt við mannvirkið auk þess sem núverandi 15 herbergi hafa verið endurnýjuð. Þá hafa stoðeiningar eins og lagerrými og þvottahús verið fluttar af hagkvæmniástæðum í þéttbýliskjarnann í Grindavík. Framkvæmdum við nýtt lagerhúsnæði þar er lokið en framkvæmdum við nýtt þvottahús lýkur nú í sumar.

Eins og undanfarin ár lagði Bláa Lónið áherslu á styrki við samfélagsverkefni, og eru verkefnin einkum á sviði hönnunar, mannræktar og heilbrigðismála auk íþrótta- og  æskulýðsmála.

Nefna má sem dæmi, að Bláa Lónið hefur  ásamt Grindavíkurbæ kostað áframhaldandi uppbyggingu Húsatóftavallar hjá Golfklúbbi Grindavíkur og nemur framlag Bláa Lónsins til verkefnisins 40 mkr. Markmið uppbyggingarinnar er að styrkja stöðu Grindavíkur sem áfangastaðar fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Með breytingunum er markmiðið, að Húsatóftavöllur verði í fremstu röð golfvalla á Íslandi.

Þá ákvað stjórn Bláa Lónsins að frá og með ársbyrjun 2016 myndi Bláa Lónið veita íslenskum psoriasissjúklingum meðferð þeim að kostnaðarlausu og án opinberrar greiðsluþátttöku. Framlag Bláa Lónsins sparar heilbrigðisyfirvöldum 25 mkr árlega.  Heilbrigðisráðherra ákvað að nýta þá fjármuni sem sparast til að styrkja aðra heilbrigðisþjónustu við psoriasis- og exemsjúklinga.

Framtíð Bláa Lónsins er björt. Það eru spennandi tímar framundan. Með samhentu átaki starfsfólks, stjórnenda og hluthafa munum við stuðla áfram að vexti og jákvæðri þróun Bláa Lónsins með ábyrgð gagnvart samfélagi og umhverfi að leiðarljósi.

Start typing and press Enter to search